Nú hefur hún Jóna okkar hætt störfum í Skógarborg. Við þökkum henni kærlega fyrir margra ára farsælt samstarf og óskum henni alls hins besta í nýjum verkefnum.

Helga Bestla hefur hins vegar gengið til liðs við okkur á nýjan leik og verður með okkur í sumar. Við bjóðum hana hjartanlega velkomna til starfa.

Ný hugmynd varðandi sameiningarmál Skógarborgar hefur komið fram, en hún er sú að við sameinumst Furuborg í stað Garðaborgar. Unnið er að þessum málum og mun þetta væntanlega skýrast á næstu dögum.

Kæru foreldrar

Nú fer fram viðhorfskönnun til foreldra barna í leikskólum í Reykjavík sem gerð hefur verið annað hvert ár. Leikskólinn fær sérstaka skýrslu með niðurstöðum auk þess sem heildarskýrsla er gerð fyrir alla leikskóla borgarinnar.  Könnunin fer fram á netinu og vil ég hvetja ykkur til að bregðast vel við og taka þátt ef til ykkar er leitað. Athugið að einungis ein könnun er send á hvert heimili og ræður hending hvort það er móðir eða faðir sem fær senda beiðni um þátttöku.

Með kveðju, leikskólastjóri

Gleðilegan febrúar!

Framundan eru mörg verkefni og ýmiskonar sérstakir dagar sem snerta leikskólastarfið á einn eða annan hátt.

5. febrúar er dagur stærðfræðinnar, en stærðfræðin litar starf okkar í Skógarborg alla daga.

6. febrúar er dagur leikskólans og ár hvert er fyrsta vika febrúarmánaðar helguð tannvernd.

Af því tilefni ætlum við í Skógarborg að gera okkur dagamun á föstudaginn, 4. febrúar. Allir mega þá mæta í einhverju hvítu og svörtu og heyrst hefur að Karíus og Baktus ætli að koma í heimsókn kl. 9:30 og sýna leikrit!

Næstu daga mun svo athygli okkar beinast áfram að tönnunum og verndun þeirra. Áhugasamir geta kíkt á heimasíðu Lýðheilsustöðvar www.lydheilsustod.is, en þar er að finna allskyns fróðleik um þetta málefni.

Munum svo að borða hollt og bursta tennurnar vel og vandlega :o)