Leikskólastarf

Leikur barna

LEIKUR  ER LÍFSTJÁNING BARNA

Leikur inniheldur þroska, nám menningu og reynslu.

 •  Leikur er sérkenni bernskunnar. Þar sem börn eru samankomin er leikurinn aðalatriðið.
 • Leikur hefur félagslegan uppruna og eykur félagsþroska barna og er forsenda þess að geta leikið við aðra.
 • Leikur auðveldar börnum samskipti, þau læra leikreglur og jafnræði ríkir á milli félaga.
 • Leikur örvar samskipti og samspil við fullorðna, foreldrar hjala  og leika við börn sín með svipbrigðum, látbragði, rödd og hreyfingu
 • Leikur losar athafnir úr venjulegi samhengi og leikur gerir barninu kleift að rifja ýmislegt upp, prófa aftur og æfa án mikillar áhættu
 • Leikur hjálpar öruggu barni áleiðis í þroska og leikur heldur stjórnsömu barni innan ákveðins ramma.
 • Leikur er ferli sem speglar allt mannlegt líf og leysir tilfinningar úr læðingi, ótta, gleði og sorg.
 • Leikur mistekst aldrei.

Dygðir

Í aðalnámskrá leikskóla er lögð áheyrsla á að efla lífsleikni meðal leikskólabarna. Í leikskóla er mikilvægt að efla lífsleikni barna með því að rækta alla þroskaþætti þeirra, dygð er siðferðislegur grunnur einstaklingsins. Persónueiginleiki hvers og eins er samsettur úr góðum siðum /dygðum og ósiðum/löstum. Það fer svo eftir því hvernig einstaklingurinn bregst við þegar á reynir hvort verður ofan á. Dygðavísar eru sendir heim með börnunum í upphafi hverrar dygðar.

Dygðirnar eru:

 • Kurteisi
 • Vinsemd
 • Glaðværð
 • Hjálpsemi

 

Leikskólastarf

Samvera

Markmið samverustundar eru:

 • að stuðla að alhliða námi barnanna
 • að börn og starfsfólk eigi notalega stund saman í upphafi dags

Í samverustundum eru lesnar sögur, ljóð, sýndar loðtöflumyndir, sungið, farið í leiki og rætt saman. Þar er einnig fjallað um ýmis þemaverkefni sem verið er að vinna að. Ýmis fræðsla tengd menningu og listum er til umfjöllunar svo og heiti daganna og mánaðanna. Auk þess er veðráttan og tíðarfarið rætt í tengslum við árstíðirnar. Samverustundir gegna mikilvægu hlutverki fyrir félags - og málþroska barnanna, þau tjá sig og læra að hlusta á aðra.

Samverustund í Skógarborg er frá kl. 9.00-10.00 á hverjum morgni nema á fimmtudagsmorgnum þá er sameiginleg söngstund allra barnanna. Síðasta fimmtudag í mánuði yfir vetrarmánuðina skiptast deildirnar svo á að halda skemmtun fyrir alla.

Á eldri deildunum er börnunum skipt í tvo hópa í samverustund og er þá annar hópurinn í innri stofunni en hinn í fataklefanum.

Tónlist.  Í Skógarborg eru skipulagðar tónlistar- og söngstundir í öllum aldurshópum og einnig eru sameiginlegar söngstundir einu sinni í viku. Tónlist er ekki eingöngu til iðkunar í skipulögðum tónlistarstundum, heldur er einnig lögð áhersla á að setjast niður í gönguferðum eða staldra við í erli dagsins, loka augunum og hlusta á hjóðin í kringum okkur.

Stærðfræði

Til að efla rökhugsun barnanna leggjum við mikla áherslu á stærðfræði. Markmiðið er að ýta undir rökhugsun, formskynjun, talna-og hugtakaskilning barnanna í gegnum leik þeirra og starf.

Útivera.

 Markmið með útiveru eru:

-           að efla alhliða þroska

-           að auka andlega og líkamlega heilsu, vellíðan, styrk og þol.

 

Útivera er frá kl. 10.10-11.20 og frá kl. 15.15-16.30. Að sjálfsögðu fer það eftir veðri og vindum hvort farið er út eða ekki sem og lengd útiverunnar. Einn starfsmaður af hverri deild fer út, fari börn af viðkomandi deild út.

Sá starfsmaður sem fyrst fer út, yfirfer útivistarsvæðið með tilliti til slysahættu t.d. svelli, pollum eða aðskotahlutum svo sem sígarettustubbum og glerbrotum, en einnig sér hann um að hliðin séu lokuð.

Allir starfsmenn bera jafna ábyrgð á útivistinni.

Lífsleikni 

Með lífsleikni er átt við hæfni til að takast á við lífið sjálft. Segja má að leikskólanámið sé í raun samfellt lífsleikninám. Til að öðlast lífsleikni þarf barnið að læra umburðarlyndi í samskiptum sínum og samneyti við aðra, læra að bera virðingu fyrir ólíku atgerfi, skoðunum og menningu. Vinátta og samkennd er dýrmætt veganesti og góður undirbúningur undir virka þátttöku í félagslífi og samstarfi síðar í lífinu. Barnið þarf að tileinka sér lífsgildi, reglur, venjur og hefðir sem ríkja heima, í leikskólanum og í samfélaginu í heild. Í leikskólanum er frumkvæði barnanna eflt og styrkt og þannig verða þau hæfari til að takast á við líf og starf í lýðræðissamfélagi. Þau eiga að taka þátt í ákvörðunum sem varða líf þeirra og leik eftir því sem aldur og þroski leyfa. Í leikskóla eiga börnin að fá tækifæri til að læra að leysa deilur á jákvæðan og friðsamlegan hátt, læra að gleðjast með öðrum og lifa í sátt við sjálf sig og umhverfi sitt.

 

Hópastarf

Í skipulögðum leikjahópum gefst starfsfólki kostur á að fylgjast með samskiptum og þroska barnanna.
Börnunum er skipt í hópa eftir aldri og þroska og vinnan er miðuð við hvern aldurshóp. Verkefnin í hópavinnu eru:myndmennt, tónmennt, hreyfing, byggingaleikir, vatnsleikir og hlutverkaleikir.

Könnunarleikurinn

Á yngstu deild leikskólans er unnið með Könnunarleikinn (Heuristic Play with Objects). Könnunarleikinn má rekja til hugmynda tveggja fræðimanna, Elinor Goldschmied og Sonia Jackson. Lykilatriði í Könnunarleik er að barnið leikur sér af eigin hvötum án þess að starfsmaður stýri því. Hlutverk hans er að sýna áhuga og vera til staðar. Leikur þar sem barnið stjórnar sjálft felur í sér eigin umbun.
Leikið er með verðlaust efni eins og lítil og stór ílát, dósir, köngla, keðjur, hólka, korktappa, lykla, geisladiska og fleira.