Leikskólinn Skógarborg

Leikskólinn Skógarborg tók til starfa 7. júlí 1969 og var fyrsti leikskólinn við Borgarspítalann, nú Landspítalann í Fossvogi.

Starfsemin hófst í litlu húsi við Klifveg en þetta hús hafði upphaflega verið sumarbústaður, síðan íbúðarhús þar sem bjuggu tvær barnmargar fjölskyldur, en varð nú tveggja deilda leikskóli.
Árið 1973 var byggð ein deild við leikskólann og fjölgaði þá plássum um sextán. Í leikskólanum voru því þrjár deildir fyrir 32-34 börn á aldrinum eins til sex ára.

Þann 1. september 1999 tóku Leikskólar Reykjavíkur við rekstrinum, síðan Menntasvið Reykjavíkur frá júní 2005 og svo Leikskólasvið Reykjavíkur frá 1.janúar 2007. Opnunartími leikskólans var í mörg ár frá kl. 07.00-19.00 og á laugardögum var opið fram yfir hádegi, en hin síðari ár hefur opnunartíminn verið styttur til muna og er nú opið frá kl. 07.30-17.00. Þann 31. maí 2006 flutti leikskólinn í nýtt húsnæði að Efstalandi 28, 108 Rvk.

Leikskólinn er þriggja deilda og heita þær Dvergasteinn, Álfasteinn og Huldusteinn. Börnunum er raðað inn á deildir eftir aldri. Barnafjöldi fer eftir reglugerð um leikskóla og verða 52 börn að jafnaði í skólanum og dvalargjöld eru ákveðin hjá Menntasviði Reykjavíkur.

Stöðugildi og launagreiðslur starfsmanna miðast við samninga Félags íslenskra leikskólakennara, Eflingar og Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar. Reiknað er með að starfsmenn verði á bilinu 12-15.

Nánasta umhverfi Skógarborgar er mjög fjölbreytt, leikvöllurinn hallar mót suðri. Völlurinn er nokkuð vel búinn leiktækjum en auk þess er gott rými til leikja. Fossvogsdalurinn er mikil náttúruparadís fyrir börn og fullorðna. Iðandi fuglalíf og fjölbreyttur gróður er vettvangur sem börnin kunna að meta sumar, vetur, vor og haust.

Helstu áherslur í starfi leikskólans er að hafa barnið í brennidepli og leggja áherslu á tilfinningalega styðjandi umhverfi, skapandi starf, lesþroska, ritmál og á stærðfræðilega hugsun barnanna.